Það er ekki hægt að lifa af námslánum

Sameiginleg sýn flestra á Íslandi er að menntun sé leið til framfara. Þrátt fyrir það leggjum við margskonar hindranir á veg þeirra sem velja að feta þá braut. Hindranir sem gera það að verkum að mörg sem útskrifast eru annað hvort skuldum vafin eða á barmi kulnunar. 

Staðan í dag

Námslánakerfið á Íslandi er sagt verðlauna þau sem standa sig í námi og ljúka því á réttum tíma. Þetta er aðeins að hluta rétt, því þó sannarlega sé í boði að fella niður hluta námslána ef námi er lokið tímanlega eru námslánin allt of lág á meðan á námi stendur, viðmið um hvað telst fullt nám eru of ströng, svo ekki sé nú minnst á þau sem verða fyrir einhvers konar áföllum á meðan á námi stendur og þurfa að gera hlé á náminu.

Að ná endum saman

Skoðum aðeins einfalda mynd af lífi háskólanema í fullu þriggja ára námi. Neminn býr í herbergi á Stúdentagörðunum, á ekki bíl og nægir lágmarksframfærsla til að mæta þörfum sínum (sem er auðvitað djók, en notum þá tölu til að geta reiknað dæmið áfram). Stúdentaherbergið kostar 118 þúsund krónur á mánuði og lágmarksframfærslan samkvæmt Menntasjóðnum er um 167 þúsund krónur. Samtals gerir það 285 þúsund krónur á mánuði. Námslán eru hins vegar 149 þúsund krónur á mánuði… í níu mánuði á ári.

Uppsöfnun skulda í þriggja ára háskólanámi miðað við lágmarksframfærslu, einstaklingsherbergi á Stúdentagörðum og tekjur eingöngu af námslánum.

Á þeim tæplega þremur árum þar til háskólaneminn hlýtur bakkalárgráðu vantar tekjur upp á tæplega 5,5 milljónir króna til að ná endum saman!

Hvernig brúa nemendur þetta bil? Mörg fá sér vinnu meðfram námi og nýta kvöld og helgar til þess að hafa í sig og á. Slíkt bætist ofan á þá fullu vinnu sem námið sjálft er og kemur niður á félagslífi, áhugamálum, fjölskyldu og vinum. Ekki beint hvatinn til að efla hugvit.

Stúdentar eiga að hafa svigrúmið til að geta einbeitt sér að náminu og taka þátt í háskólasamfélaginu. Háskólanám er nefnilega ekki bara bókalestur og verkefnaskil. Það er samfélag sem á sér fáa líka. Að verja tíma með fólki með mismunandi áhugasvið, úr mismunandi deildum háskólanna og kasta á milli sín hugmyndum er ávísun á frjóa hugsun og nýsköpun - sem mörg af stærstu fyrirtækjum landsins hafa sprottið upp úr. Það eru því ekki bara stúdentar sem fara á mis við margt ef þeir geta ekki tekið þátt í háskólasamfélaginu, heldur Ísland allt.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.

Framtíðarsýn Pírata

Enginn veit hversu margar góðar hugmyndir, sem hefðu fengið byr undir báða vængi í háskólanámi, hafa farið forgörðum á Íslandi vegna þess að fólk sér sér ekki fært að mennta sig. Það þarf ekki margar slíkar tapaðar hugmyndir til að fórnarkostnaðurinn vegna þeirra verði mun hærri en kostnaðurinn við námslánakerfi sem myndi raunverulega veita fólki grunnframfærslu.

Við í Pírötum áttum okkur á þessu og höfum þess vegna lagt fram nokkrar lykilaðgerðir sem eru til þess fallnar að verulega stytta skuldahalann sem stúdentar taka með sér út í lífið að loknu námi. Við leggjum til að hækka grunnframfærslu námsfólks þannig að hún taki mið af grunnatvinnuleysisbótum fyrir fullt nám. Við leggjum einnig til að hækka fæðingarstyrk námsmanna og að tryggja rétt námsfólks til atvinnuleysistrygginga í námshléum.

Þessar aðgerðir eru að finna í frumvarpi Pírata um bætta stöðu námsmanna sem er að finna á vefsíðu Alþingis. Við leggjum þar einnig til að lágmarkseiningafjöldi til að fá lánsrétt lækki úr 44 einingum á ári í 24 einingar, að hægt verði að fá greitt út fullt námslán þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði um lágmarks námsframvindu og að styrkhlutfall lána hækki úr 30% í 40%.

Allar aðgerðirnar miða að því að jafna tækifæri til náms í alvöru, ekki bara að nafninu til, og veita nemum aukið svigrúm til að takast á við erfiðar aðstæður sem gætu komið upp á meðan á námi stendur án þess að fjárhagsörðugleikar leggist ofan á þær áhyggjur. Stuðningur við námsfólk er gríðarlega mikilvæg og arðbær fjárfesting í framtíðinni.


Menntun á að stunda menntunarinnar vegna. Menntun á ekki að þjóna vinnumarkaðinum heldur eiga nemendur sem koma úr námi að móta vinnumarkaðinn eftir sínum áherslum. Lykilforsendan hérna er fjárhagslegt öryggi. Nemendur sem útskrifast ekki með skuldabagga á bakinu taka öðruvísi ákvarðanir. Ef fólk kemur fjárhagslega frjálst úr námi þá hefur það tækifæri og svigrúm til að taka frjálsari ákvarðanir um hvers konar störfum það sækist eftir og þiggur. Fólk er líklegra til að fylgja ástríðu sinni og huga að samfélagslegum ávinningi umfram fjárhagslegum ábata. Þannig eflum við getu fólks til að móta hagkerfið og velsældina, frekar en að vera þjónar núverandi kerfis.