Joseph Stiglitz flytur erindi í Veröld

oseph Stiglitz Nóbel-verðlaunahafi í hagfræði hélt erindi um frjálshyggju og kapítalisma í Húsi Vigdísar á dögunum. Þar var hagfræðingurinn nokkuð harðorður í gagnrýni sinni á hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og kynnti nýjustu bók sína sem mun fjalla um það sem Stiglitz kallar „framfarakapítalisma“ (e. progressive capitalism). Í framhaldi af því var Stiglitz boðið í viðtal á Rúv og þar gagnrýndi hann stýrivaxtahækkanir seðlabanka heims sem hann taldi vera að „hella olíu á eldinn“.

Myndir: Kristinn Ingvarsson

Rekinn úr Alþjóðabankanum fyrir að segja sína skoðun

Stiglitz er þekktur fyrir rannsóknir sínar á sviði upplýsingahagfræði, en hann telur þær hafa sýnt fram á að ójafn aðgangur að upplýsingum komi í veg fyrir að markaðurinn leiði til hámarksskilvirkni, og að vegna þessa séu afskipti ríkisins nauðsynleg.

Hagfræðingurinn hefur komið víða við en meðal annars fór hann fyrir efnahagsráðgjafanefnd Bills Clinton Bandaríkjaforseta og var síðar ráðinn sem aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. Gagnrýni hans á stefnu Alþjóðabankans var hins vegar illa liðin og árið 2000 var hann látinn taka pokann sinn, en það sama ár var hann fenginn af Seðlabanka Íslands til að gera úttekt á íslensku hagkerfi.



Gagnrýninn á misskiptingu og nýfrjálshyggju

Stiglitz hefur gefið út margar bækur um hagfræði þar sem hann hefur meðal annars verið mjög gagnrýninn á misskiptingu, hnattvæðingu viðskipta og nýfrjálshyggju. Misskipting tekna hefur aukist mjög í Bandaríkjunum á síðustu árum og áratugum og nú er svo komið að neðstu 50% þjóðarinnar fá til sín aðeins um 10% af heildartekjum landsins, en það hlutfall hefur dregist saman um helming síðan 1970 samkvæmt tölum frá World Inequality Database. Þá hefur misskipting eigna aukist sömuleiðis með þeim afleiðingum að 1% ríkustu borgara landsins eiga 35% alls auðs í landinu.

Stiglitz bendir á að samkvæmt hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hafi misskipting gjarnan verið réttlætt með vísun í „dugnað“, „hagsýni“ eða „snilld“ athafnamanna, en að raunveruleikinn sé oft mun flóknari og þættir á borð við forréttindi og tilviljanir geti spilað stórt hlutverk hvað varðar efnahagslega velgengni einstaklinga. Þá vísaði hagfræðingurinn í vel þekkt dæmi hér á landi: hvernig útfærsla kvótakerfisins leiddi til þess að tiltölulega fáir einstaklingar efnuðust skyndilega á tilviljanakenndum forsendum.




Frelsið til að arðræna

Hagfræðingurinn gerði frelsið líka að umræðuefni á málþinginu og gagnrýndi hvernig nýfrjálshyggjan hefði reynt að jafna saman frelsi og regluleysi. Hann benti á að í mörgum tilfellum væru takmarkanir á frelsi forsenda fyrir hinu sama frelsi og tók sem dæmi umferðarljós: slíka valdbeitingu ríkisins má skilgreina sem hömlun á frelsi okkar en hún er um leið forsenda þess að við getum farið á milli staða án þess að eiga á hættu að keyrt sé á okkur. Frelsi og takmarkanir séu því tvær hliðar á sama peningi. Nýfrjálshyggjan snúist hins vegar gjarnan um að verja frelsi þeirra máttugu til að valta yfir eða hagnast á framlagi þeirra máttlausu, og þá vísaði Stiglitz sérstaklega í bók Milton og Rose Friedman Frelsið til að velja (e. Free to Choose), sem hann taldi að ætti frekar að heita Frelsið til að arðræna (e. Free to Exploit).




Telur vaxtahækkanir hella olíu á eldinn

Í viðtali í Kastljósi RÚV var Stiglitz meðal annars spurður út í vexti og verðbólgu, en hann gagnrýndi þá vaxtastefnu sem seðlabankar heims hafa tekið upp í baráttunni gegn verðbólgu. Stiglitz telur verðbólguna fyrst og fremst hafa orsakast af hækkandi verði orku og matvæla.

„Skapar hækkun vaxta meira af orku eða meira af matvælum sem lækkar verðið?“ spyr Stiglitz, en hann telur að svo sé ekki. Hann telur lækkun verðbólgu að undanförnu hafa átt sér stað þrátt fyrir vaxtahækkanir frekar en vegna þeirra.

Vangaveltur Stiglitz voru áhugaverðar en stundum vantaði vísun í gögn og rannsóknir til að styðja við staðhæfingar hans. Þetta virðist reyndar vera algengur ósiður hjá hagfræðingum, sem láta gjarnan nægja að vísa í fræðilegar kenningar án þess að sýnt hafi verið fram á tengsl slíkra kenninga við raunveruleikann. Þetta á ekki síður við þegar kemur að umræðum um stýrivexti og verðbólgu: hagfræðingar skiptast gjarnan í stríðandi fylkingar sem hver um sig telur sig vita hver séu áhrif stýrivaxta á verðbólgu, en sjaldan vísa fræðingarnir í rannsóknir og athuganir úr raunheimum til að styðja við ráðleggingar sínar. Þeir minna að því leyti til á lækna átjándu aldar sem voru annað hvort dyggir stuðningsmenn eða hatrammir andstæðingar ákveðinna strauma og stefna í læknisfræði, en vissu í raun lítið meira en aðrir um gangverk mannslíkamans.

Má vera að verðbólga sé frekar einkenni en sjúkdómur þegar kemur að heilsu heimshagkerfisins? Ef svo er verður auðvitað að ráðast að rót vandans, en aðgerðir til að draga úr verðbólgu jafngilda þá ávísun á verkjalyf: þær geta í besta falli dregið úr einkennum en gera ekkert til að ráðast á meinið sjálft.