Erfitt að vakna í skammdeginu

Þegar hátíð ljóss og friðar er liðin og landsmenn hafa tekið niður jólaljós er erfitt að komast hjá því að finnast myrkrið þrúgandi og hversdagsleikinn dimmur. Þrátt fyrir að vetrarsólstöður séu í desember og hægt sé að gleðjast yfir því að daginn fari aðeins að lengja, er sem áhrif myrkursins séu meiri fyrstu mánuði ársins. Í janúar og febrúar glíma margir við skammdegisþunglyndi eða skammdegisdrunga og enn fleiri eiga erfitt með að vakna á morgnanna. 

Brottfall úr skólum vegna klukkuþreytu

Þverfagleg rannsókn á vegum Háskóla Íslands á áhrifum of fljótrar klukku á svefn fólks á Íslandi hófst núna í skammdeginu í janúar. Frá 1968 hefur klukkan á Íslandi verið stillt í samræmi við miðtíma Greenwich sem er einu tímabelti austar en Ísland.

Þar af leiðandi er sólarupprás einni klukkustund á eftir staðarklukku en morgunbirtan er nauðsynleg til að stilla lífsklukkuna sem ákvarðar tímasetningu svefns og vöku. Þetta ósamræmi veldur því að fólk seinkar háttartímanum sínum og sefur skemur en æskilegt er þar sem það þarf að vakna til skóla eða vinnu. 

Í rannsókninni verða svefnvenjur eða dægurgerð fólks, það er morgungerð (morgun-hani), milligerð og kvöldgerð (nátthrafn), skoðuð sérstaklega. Samkvæmt Björgu Þorleifs-dóttur, lektor í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands, hafa eldri gögn sýnt að svokölluð seinkuð dægur-gerð er mjög algeng meðal ungs fólks (1-30 ára), þótt hún sé hvað mest seinkuð í aldurshópnum 16-19 ára. Því telur hún ekki ólíklegt að fjöldi háskólastúdenta sé með seinkaða dægurgerð.

Samkvæmt Björgu fylgir klukkuþreyta (e. social jetlag) seinkaðri dægurgerð. Klukkuþreyta líkist flugþreytu (e. jetlag) þar sem hvort tveggja á orsök sín í misræmi á eiginlegri lífsklukku og staðarklukku. Munurinn er hins vegar sá að klukkuþreyta er varanleg en flugþreyta ekki. Brottfall í framhaldsskólum er talið mega rekja til klukkuþreytu og því má spyrja sig hvort hún sé einnig ein af skýringum brottfalls úr háskóla. 

Þreyta meðal nema HÍ

Velta má fyrir sér hvaða áhrif klukkan og myrkrið hefur á nemendur Háskóla Íslands. Katrín Sverrisdóttir, sálfræðingur NSHÍ, segist eiga erfitt með að átta sig á hvort aukin eftirspurn sé eftir viðtalstímum í dimmustu mánuðunum þar sem eftirspurnin sé stöðug. Í desember, janúar og febrúar sé þó iðulega þriggja vikna bið eftir viðtali.

Algengt er að nemendur lýsi aukinni þreytu og orkuleysi á þessum mánuðum. Þó kemur einnig fyrir að nemendur glími við slíkt á öðrum tímum árs þar sem þreyta og orkuleysi getur orsakast af margvíslegum ástæðum. 

Samkvæmt Þórgunni Ársælsdóttur, geðlækni, er algengt að skammdegisþunglyndi einkennist af depurð, auknum svefni, aukinni matarlyst og löngun í sætindi, þyngdaraukningu, pirringi, þreytu og orkuleysi. 

Dagsljósalampar í sundi

Katrín mælir með því að nemendur sem glíma við skammdegisþunglyndi taki stóran skammt af lýsi (omega-3) og D-vítamíni yfir vetrarmánuðina. Omega-3 fitusýrur eru taldar geta dregið úr dapurleika og árstíðarbundnu þunglyndi.

Við skammdegisþunglyndi er fyrst og fremst mælt með notkun dagsljósalampa en viðtalsmeðferð og þunglyndislyf geta einnig verið gagnleg. Katrín bendir á að hægt sé að nota slíka lampa frítt til dæmis í Vesturbæjarlauginni ef greitt er fyrir sundferð. Hins vegar er mælt með daglegri notkun dagsljósalampanna og því getur verið farsælast fyrir þá sem þjást af skammdegisþunglyndi árlega að eignast slíkan lampa. 

Nýta dagsbirtuna

Ýmislegt má gera til að auka vellíðan í skammdeginu. Þórgunnur mælir með því að auka birtu í umhverfið, draga gardínur frá gluggum á meðan bjart er og passa upp á að ekkert hindri dagsljósið.

Gott er að sitja nálægt glugganum. Hún bendir einnig á að vekjaraklukkur með dagsljóslampa sem líkja eftir dagrenningu gagnist mörgum. Útivera í dagsbirtu og regluleg hreyfing er mikilvæg og getur dregið úr þunglyndiseinkennum.