Er rými í þjóðfélaginu fyrir umræður um bólusetningar?

Bólusetningar gegn sjúkdómum er viðfangsefni sem reglulega vekur upp heitar umræður. Foreldrar vilja vera meðvitaðir um heilsu barna sinna og leitast við að taka upplýstar ákvarðanir tengdar heilsu þeirra. En hvað er upplýst ákvörðun?

Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlega smitsjúkdóma. Þessir smitsjúkdómar tóku fjölmörg líf áður fyrr ásamt því að skilja mannkynið allt eftir vanmáttugt gagnvart þessum veirum. Gott dæmi um slíka veiru er bólusótt sem fylgdi manninum í mörg hundruð ár.

Bóluefni eru unnin úr veikluðum veirum, bakteríum eða innihalda efni sem finnast í sýklum. Í því þéttbýlissamfélagi sem stór hluti mannkyns býr í nú á dögum felst mikilvægi bólusetninga ekki síst í því að ekki er hægt að halda farsóttum í skefjum nema meginþorri landans sé bólusettur. Notast er við svokallað hjarðónæmi þar sem að nánast allir þjóðfélagsþegnar eru sprautaðir með bóluefni gegn tilteknum sjúkdómunum og þar af leiðandi nær sjúkdómurinn ekki að breiðast út þrátt fyrir að ekki séu allir bólusettir.

Alltaf eru til einstaklingar sem ekki hafa aldur eða heilsu til bólusetningar og þar af leiðandi getur hjörðin skapað varnarvegg fyrir þessa einstaklinga ef að flestir eru bólusettir. Foreldrar sem taka þá ákvörðun að bólusetja ekki börnin sín geta þannig brotið niður hjarðónæmið með því að skjóta göt í varnarvegginn. Í svari frá sóttvarnarlækni inni á vefsíðu landlæknisembættisins frá því í mars 2015 kemur fram að einungis 2% barna á Íslandi sem fædd eru á árunum 1995–2002 séu ekki bólusett sem og að 95% íslendinga séu hlynntir bólusetningu barna.

Foreldrar vilja að sjálfsögðu taka ákvarðanir sem eru börnum sínum í hag og ekki spila með heilsu þeirra. Nú á dögum er gífurlegt flæði upplýsinga sem veldur því að hræðsluáróður nær eyrum fólks auðveldar. Aftur og aftur koma upp í umræðunni staðhæfingar um að bólusetning barna sé skaðleg fyrir þau. En ætli þessi áróður um að bólusetning barna sé í raun hættuleg og skaðleg börnum kæfi málefnalega umræðu um bólusetningar?

Ef tölur um smitsjúkdóma og veirur eru skoðaðar er ekki hægt að neita því hve mjög bólusetningar hafa stuðlað að bættri heilsu almennings líkt og fyrrnefnd bólusótt sem var loks útrýmt árið 1980. En samt sem áður verða alltaf gagnrýnisraddir sem halda því fram að bólusetningar sé kerfisbundin ógn við lýðheilsu barna. Þessar raddir hafa kannski aldrei átt jafn auðvelda leið inn í huga foreldra fyrr en nú á tímum stórkostlegs upplýsingaflæðis.

Eitt langlífasta dæmið um áróður sem á sér enga stoð í raunveruleikann er fölsk rannsókn breska læknisins Andrew Wakefield sem gerð var á tíunda áratug síðustu aldar þar sem hann hélt því fram að bólusetningar gegn t.d. mislingum stuðluðu að einhverfu hjá börnum.

Árið 2004, eftir að vinna bandarísks rannsóknarblaðamanns sýndi fram á fjárhagslegan ávinning ákveðinna aðila í málinu, drógu flestir heimildarmanna hans sig til baka og rannsókn hans var gerð ógild. Missti Wakefield læknisréttindi sín í kjölfarið. Samt sem áður virðist mýtan um tengsl bólusetninga við einhverfu vera langvinn.

Í kjölfar umræðu um bólusetningar barna í haust var tekið viðtal, í kvöldfréttum Stöðvar 2, við konu sem neitar að bólusetja börn sín. Viðtalið bar yfirskriftina Vill ekki bólusetja börnin sín en af spurningum blaðamanns og uppsetningu fréttar að dæma er greinilegt að ákvörðunin þykir ekki eðlileg. Í athugasemdum undir fréttinni sjást einnig greinilega neikvæð viðbrögð við ákvörðun konunar. Konan segist hafa séð breytingar á fyrsta barni sínu eftir bólusetningu og vilji ekki taka áhættu með önnur börn sín.

Áhugavert er þó að í fréttinni kemur einnig fram að Vísir hafi rætt við fjölda fólks sem þorði einfaldlega ekki að viðurkenna opinberlega að þau bólusettu ekki börnin sín af ótta við gagnrýni. Þrátt fyrir að ákvörðun foreldra að bólusetja ekki börn sín vekji reiði hjá mörgum þá er nauðsynlegt að rými sé í þjóðfélaginu til þess að eiga málefnalegar og upplýstar umræður byggðar á vísindalegum staðreyndum. Þá sérstaklega til þess að umræða haldist á fræðilegum nótum og einstaklingar með falskar rannsóknir eða einhvers konar gervivísindi eigi ekki greiða leið inn í huga smeykra foreldra.

Allar rannsóknir sýna að engin fylgni er á milli einhverfu og bólusetninga gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt líkt og haldið hefur verið fram. Þegar sjúkdómar líkt og bólusótt og mislingar hverfa úr augum almennings vegna bólusetninga er hætta á að fólk gleymi skaðsemi þeirra og hve algeng smit voru fyrir tíma bólusetninga.

Nýlegasta dæmið um sambærilegan áróður á Íslandi var koma bandaríska læknisins Suzanne Humphries til landsins sem olli miklu fjaðrafoki innan Háskóla Íslands. Humphries kom á vegum samtaka sem kalla sig Heilsufrelsi og kemur fram á síðu þeirra að samtökin leitist við að tryggja aðgengi að allri heilbrigðisþjónustu, upplýsingum, meðferðum og vörum sem fólk telur gagnlegt í læknisfræðilegum tilgangi.

Heimsókn Suzanne Humphries vakti mikla athygli fyrir þær sakir að kynningin var haldin í húsakynnum Háskóla Íslands. Fannst starfsmönnum skólans ekki vera við hæfi að Háskóli Íslands setti nafn sitt fyrir fyrirlestur af þessu tagi þar sem slíkum áróðri væri haldið á lofti sem og að selja bók sína þar. Inni á heimasíðu félagsins Vantrúar er fjallað um Humphries sem er virk í bandarískum hreyfingum sem berjast gegn bólusetningu og gaf meðal annars út bókina Saga bólusetninga ásamt Roman Bystrianyk.

Bókin hefur nú verið íslenskuð og var það gert í tilefni af komu Humphries til landsins. Suzanne Humphries notast við hræðsluáróður þar sem hún kallar bóluefni ónáttúruleg og segir að líkaminn eigi að hafa tök á að búa til allar sínar náttúrulegu varnir sjálfur. Í viðtali, sem birt er á vefsíðunni Youtube undir flokknum fræðsla, heldur hún fram að bólusetningar hafi aldrei verið öruggar og það sé í raun ekki mögulegt fyrir læknavísindi að skapa „öruggar bólusetningar“.

Ótrúlegt en satt þá virðast margir aðhyllast kenningar þessarara konu

Humphries segir að vaxandi ofnæmi barna sé til komið vegna þess að að búið sé að brjóta niður ónæmiskerfið í gegnum tíðina. Inni á vefsíðu Vantrúar kemur jafnframt fram að Suzanne efist um mislinga vegna þess hve dánartíðni þeirra er lág. Mislingar er einn mest smitandi veirusjúkdómur sem til er en stafar hættan af fylgikvillum sem sjúkdómurinn getur valdið. Á 19. öld dóu um 2000 manns úr mislingum á Íslandi en nú hefur sjúkdómnum að mestu leyti verið útrýmt, einmitt með bólusetningum. Önnur sótt sem herjaði á landann á árum áður er fyrrnefnd bólusótt sem er bráðsmitandi sjúkdómur sem börn eru nú bólusett fyrir. Sjúkdómurinn drap um þriðjung smitaðra einstaklinga og er talið er að hann hafi fylgt mannkyninu í aldaraðir. Stórabóla geisaði á Íslandi á árunum 1707–1709 og létust um 16–18 þúsund manns á þeim árum.

Er það augljóslega stór tala fyrir hina litlu íslensku þjóð. Árið 1980 var svo tilkynnt á fundi á Alþjóðaheilbrigðisþinginu að bólusótt hefði verið útrýmt með bólusetningum. Ætli hverfandi sýnileiki vissra veirusótta í samfélaginu sé ástæðan fyrir því að foreldrar kjósi að bólusetja ekki börn sín? Eða ætli það sé hið gígantíska magn af upplýsingum sem nú er í boði? Önnur ástæða getur einnig verið minnkandi traust fólks á yfirvöldum. Allt eru þetta þættir sem vert er að skoða og eykur enn fremur nauðsyn þess að halda umræðunni um bólusetningu barna lifandi.

Samfélagsleg ábyrgð er einnig stór þáttur þegar um er að ræða bólusetningar með því markmiði að útrýma skaðvænlegum sjúkdómum. En til þess að fólk eins og Humphries og Wakefield eigi ekki greiða leið inn í hug og hjörtu smeykra foreldra verður umræðan um bólusetningar einmitt að vera opin fyrir gagnrýni. Það þýðir ekki að lokað sé á allar gagnrýnisraddir heldur fremur að hagsmunir ákveðinna aðila séu uppi á borðinu opnir fyrir öllum. Það að vera upplýstur snýst eflaust í lok dagsins um það að taka ákvarðanir byggðar á vísindum með hagsmuni fjöldans að leiðarljósi. Að hlusta á heilbrigðiskerfið og upplýsa sjálfan sig og aðra.

 

Texti: Bryndís Silja Pálmadóttir