Fyndnasti háskólaneminn 2017: Ætlaði að verða heilaskurðlæknir eða dansari en endaði í lögfræði

Mynd/Ragnhildur Weisshappel

Mynd/Ragnhildur Weisshappel

Laganeminn Hrafnkell Ásgeirsson er fyndnasti háskólaneminn 2017. Hrafnkell nældi sér í nafnbótina á úrslitakvöldi keppninnar sem fram fór á Stúdentakjallaranum þann 28. mars síðastliðinn. Að launum hlaut hann hvorki meira né minna en 100 þúsund króna gjafakort frá Landsbankanum og boð um að troða upp í Þjóðleikhúskjallaranum ásamt grínistunum góðkunnu í Mið Íslandi. Stúdentablaðið spurði Hrafnkel út í lífið, grínið og tilveruna, en hvernig skyldi það vera, hefur Hrafnkell alltaf verið svona fyndinn?

„Æj, ég drakk bara einhvern skrítinn drykk um daginn og þá bara kom þetta allt yfir mig,” segir Hrafnkell og hlær. „Nei ég veit það ekki, maður hefur alltaf verið eitthvað að grínast, svona eignlega frá því ég man eftir mér, en þá meira bara í einhverjum ræðum eða eitthvað. Ég hef aldrei prufað þetta áður,” útskýrir Hrafnkell en hann tók til að mynda virkan þátt í MORFÍS á framhaldsskólaárunum.

En hvernig kom það til að hann ákvað að taka þátt í fyndnasta háskólanemanum?

„Viktor Jónsson vinur minn, hann er að læra úti í Bandaríkjunum og hann var að fara í uppistand,” segir Hrafnkell. Viktor leggur stund á leiklistarnám og spilar knattspyrnu í Bandaríkjunum en hann komst einmitt í fréttirnar fyrr á árinu þegar hann hitaði upp fyrir sjónvarpsmanninn Trevor Noah. „Hann var að tala við mig og ég var að kíkja á hans efni og hjálpa honum með það. Þá spurði hann mig bara allt í einu: „Hey, af hverju prufar þú þetta ekki,” útskýrir Hrafnkell. Mundi hann þá eftir að hafa séð auglýsingu um keppnina og lét slag standa. „Ég hugsaði bara, jú af hverju ekki, og lét á það vaða og svo gekk það rosalega vel,” segir Hrafnkell.

Umvafinn uppdópuðum tígrisdýrum

Í uppistandinu sem Hrafnkell flutti á úrslitakvöldinu gerði hann létt grín af þeirri námsleið sem hann hafði valið sér í háskólanum. Sagðist hann hafa verið óviss um hvað hann langaði að gera eftir framhaldsskóla, allt þar til einn daginn, þar sem hann var umvafinn uppdópuðum tígrisdýrum í Tælandi, rann upp fyrir honum ljós. „Mig langar til að bera út fjölskyldur sem ná ekki að borga af húsnæðislánunum sínum,” sagði Hrafnkell og uppskar hlátrarsköll í salnum. „Þannig ég skráði mig í lögfræði.”

„Ég vona nú að fólk hafi náð gríninu þar,” segir Hrafnkell og hlær. En hver er raunverulega ástæðan fyrir að lögfræðin varð fyrir valinu?

„Ég veit ekki af hverju ég fór í lögfræði. Það hefur alltaf einhvern veginn legið vel fyrir mér að lesa langa texta og rökfræði, búinn að vera eitthvað í ræðumennsku og pabbi er lögfræðingur, sem að spilar örugglega meira inn í en ég held,” útskýrir Hrafnkell. „Einhvern veginn lá allt saman í þetta. Þetta er prýðilegt nám sko, þótt ég hafi skotið þarna aðeins á það í uppistandinu.”

Líkt og fyrr segir hlaut Hrafnkell 100 þúsund krónur í verðlaun fyrir frammistöðuna og bauðst honum að troða upp með Mið-Íslandi strax í sömu vikunni og keppnin fór fram. „Það gekk eins og í sögu bara,” segir Hrafnkell, „það tók smá tíma kannski að ná öllum á band með manni, fólk veit ekkert hver þú ert, en svo um leið og þau byrja að hlæja þá er þetta komið,” útskýrir Hrafnkell. En hvað hyggst hann gera við peningana?

„Bara leggja hann inn á framtíðarbókina,” svarar Hrafnkell hikandi. „Nei ég veit það ekki. Ég hef náttúrlega ekkert verið að vinna með skólanum og maður er ekkert eitthvað syndandi í pening þannig að ég held að þetta fari nú eitthvað í bjór og mat og svona eins og restin af peningnum mínum hefur horfið í,” bætir Hrafnkell við en líklega kannast fleiri stúdentar við þetta sama vandamál.

Fer til Spánar í haust

Hrafnkell útskrifast úr grunnámi nú í vor og er svo á leiðinni í skiptinám til Spánar í haust þar sem hann hyggst hefja mastersnámið. En hvert er stefnan tekin að því loknu, ætlar fyndnasti háskólaneminn 2017 að elta einhverja drauma að námi loknu?

„Úff, ég fæ alltaf bara kvíðahnút í magann þegar ég er spurður að þessu. Ég er meira bara að taka einn dag í einu. Bara að vera hamingjusamur eða eitthvað, ég veit það ekki. Ég er ekki með einhvern draum um að fara til Ástralíu og kenna köfun eða eitthvað, bara sjá hvert þetta leiðir mann allt saman,” svarar Hrafnkell.

„Ég hef fengið að heyra söguna svona hundrað sinnum að ég sem sagt sagði pabba að ég ætlaði að verða heilaskurðlæknir. Það var einhver svona draumur,” segir þá Hrafnkell, spurður hvort hann hafi átt sér einhverja drauma þegar hann var yngri. „Svo sagði hann mér að það væri sem sagt eitthvað 10 ára nám til að læra það og þá sagði ég við hann að ég ætlaði að vera dansari í staðinn. Það var alltaf það sem ég stefndi á, að vera dansari. En svo kannski hafði ég ekki alveg hæfileikana í það,” segir Hrafnkell. Hæfileikunum hefur hann þó fundið annan farveg og horfir Hrafnkell bjartsýnn til framtíðar, bæði reynslunni og 100 þúsund krónum ríkari.

Blaðamaður: Elín Margrét Böðvarsdóttir
Viðtal birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins