Réttinda-Ronja

Vefsvæði sem gagnast fötluðum nemendum og nemendum með sértæka námsörðugleika

Starfsteymi Réttinda-Ronju.

Starfsteymi Réttinda-Ronju.

Háskóla Íslands er skylt samkvæmt lögum að tryggja að upplýsingar um þjónustu fyrir fatlaða nemendur séu aðgengilegar og auðfundnar. Þó er ýmislegt ábótavant í þeim efnum og erfitt getur reynst að finna upplýsingar um úrræði sem eru í boði fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika. Starfsteymi Réttinda Ronju vill stórbæta aðgengi að upplýsingum fyrir þá háskólanema sem búa við fötlun eða skerðingu í námi. Svo það sé hægt, safnar starfsteymið og kemur fyrir á einum stað upplýsingum, sem hjálpa þeim nemendum að kynna sér réttindi sín og möguleg úrræði í námi.

Hugmyndin að verkefninu varð til í jafnréttisnefnd SHÍ fyrir tveimur árum. Þá leitaði til nefndarinnar nemandi með hreyfihömlun sem hafði ekki fengið þá þjónustu sem hann hafði þörf á og vissi ekki hvaða réttindi hann hafði til þess að krefjast hennar. Vorið 2015 sáu Rakel Rós Auðardóttir Snæbjörnsdóttir og Sigvaldi Sigurðarson, sem sátu í jafnréttisnefnd það árið, auglýst eftir umsóknum um styrk hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna hjá Rannís og sáu gott tækifæri til að rannsaka aðgengi fatlaðra nemenda. Þau fengu til liðs við sig Eirík Smith, doktorsnema við rannsóknarsetrið í fötlunarfræðum og var hann umsjónarmaður verkefnisins. Þau fengu styrkinn og tóku til starfa sumarið 2015.

Aðgengi að upplýsingum þótti slæmt

Tekin voru rýnihópaviðtöl við nemendur sem þurfa að nota sérstaka þjónustu innan HÍ og fengu að heyra af reynslu þeirra, upplifunum og hugmyndum um þjónustuna. Í rýnihópnum voru 17 viðmælendur og voru niðurstöðurnar nýttar í alla ákvarðanatöku. Allir viðmælendur voru sammála um að upplýsingar um úrræði í námi mættu vera sýnilegri. Yfir helmingi þátttakenda þótti aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi slæmt.

Örfáum fannst nshi.is, heimasíða náms- og starfsráðgjafar, gagnast sér vel og allir töldu að þeir myndu nýta sér vefsvæði Réttinda-Ronju. Þegar staða þessara mála var skoðuð var ljóst að úrræðin voru ekki nægilega einstaklingsmiðuð og áberandi skortur var á upplýsingum. Teymið vann úr niðurstöðum viðtalanna og greindi gæði þjónustunnar. Jafnframt söfnuðu þau öðrum nauðsynlegum upplýsingum um þjónustu við nemendur og þeim úrræðum sem stæði þeim til boða.

Ekki aðeins upplýsingaveita

Þau ákváðu að safna upplýsingunum saman á vef tengdum Háskólanum, það er vef stúdenta þar sem um er að ræða réttindamál þeirra. Réttinda-Ronja er núna upplýsingabanki inn á slóðinni student.is/ronja. Þessi hluti vefsins mun nýtast framtíðar nemendum sem og þeim nemendum sem nema núna við Háskóla Íslands. Hann stuðlar einnig að gagnsæi í stjórnkerfinu sem og auknum réttindum og þjónustu við fatlað fólk. Réttinda-Ronja er ekki aðeins upplýsingaveita heldur einnig þrýstiafl á bætta þjónustu og aðgengi að henni innan allra háskóla á Íslandi. Vefurinn gerir nemendum sömuleiðis kleift að bera saman þjónustu háskólanna með þeim upplýsingum sem þar koma fram og þar með tekið upplýstari ákvörðun um val á háskóla.

Aðalmarkmið verkefnisins sem stendur er að útvíkka núverandi vef svo hann geti nýst öllum íslenskum háskólanemum. Líkt og þegar Réttinda-Ronja var upprunalega gerð mun fara fram þarfagreining innan hinna háskólanna og viðbætur síðunnar byggðar á niðurstöðum greiningarinnar. Fatlaðir nemendur og nemendur með sértækar námsþarfir í öðrum háskólum en Háskóla Íslands myndu njóta mikils ávinnings af vef Réttinda-Ronju þar sem upplýsingaflæði um rétt þeirra til þjónustu innan þeirra háskóla myndi aukast gífurlega.

Starfsteymið samanstendur nú af fjórum starfsmönnum með ólíka sérþekkingu og bakgrunn. Í teyminu eru Sigvaldi Sigurðarson, með BS. gráðu í sálfræði við HÍ en hann vann að upprunalegu Réttinda-Ronju, Daníel G. Daníelsson, 3. árs BA-nemi í sagnfræði við HÍ, Anna Margrét Björnsdóttir, meistaranemi í tölvunarfræði við HÍ og Magnús Jóel Jónsson, stjórnmálafræðinemi á grunnstigi í HÍ.

Blaðamaður: Ingvar Þór Björnsson
Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.