Spurningar til flokkanna - Alþingiskosningar 2017

voting picture_2 (1).jpg

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna?
 

Björt framtíð: Björt framtíð telur það forgangsatriði að fjármagna háskólana að fullu. Við viljum að háskólarnir stundi öflugt rannsóknarstarf, bjóði upp á fjölbreytta menntun og svari kalli atvinnulífsins um þá þekkingu og kunnáttu sem þarf. Þeim þarf að gera kleift að taka þátt í rannsóknum og þróunarstarfi með því að tryggja að innviðir skólanna standist gæði og samkeppnishæfni þeirra sé góð. Til þess þarf aukna fjármuni.

Framsókn: Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni. Framsókn vill setja 20 milljarða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál og bregðast við brýnni þörf um uppbyggingu innviða samfélagsins. Á þeim umbreytingatímum sem við lifum sköpum við ný tækifæri með öflugu menntakerfi og fjárfestingu í hugverka- og þekkingariðnaði. Menntun, rannsóknir og nýsköpun eru undirstaða kröftugs hagvaxtar en um leið velferðar og hagsældar til framtíðar.

Miðflokkurinn: Við ætlum að auka framlög til háskólanna. Við ætlum menntastofnunum að verða leiðandi í að nýta nýjustu tækni á sviði menntamála og þróun náms. Rannsóknar- og þróunarsjóðir verði að hluta merktir sókn í ákveðnum landshlutum í samræmi við stefnuna Ísland allt.

Píratar: Allt starf háskóla skal hvíla á vísindalegum eða listrænum grunni, eftir því sem við á, og byggjast á þekkingu og aðferðum sem standast þær kröfur um áreiðanleika og nýsköpun sem gerðar eru á hverju fræðasviði. Niðurstöður rannsókna í háskólum skulu birtar opinberlega, í samræmi við alþjóðlegar hefðir á hverju sviði. Festa skal í lög ákvæði um hvernig akademískt frelsi háskóla skuli tryggt.

Samfylkingin: Samfylkingin vill að íslenskir háskólar verði með þeim bestu í heimi. Til þess þurfum við að fara í stórsókn í menntamálum. Við viljum auka framlög til háskólastigsins svo framlög á hvern nemanda nái meðaltali Norðurlandanna. Við viljum einnig stórefla rannsóknir. Þá teljum við brýnt að ráða fleiri sálfræðinga til starfa í háskólunum.

Sjálfstæðisflokkurinn: Menntun, vísindi og nýsköpun gegna lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða á Íslandi til frambúðar. Fjárfesting í menntun og þar með háskólamenntun, er ein meginstoð verðmætasköpunar á Íslandi. Íslenskir háskólar þurfa fjármagn til að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni. Kappkosta þarf að auka samvinnu og samhæfingu íslenskra háskóla- og vísindastofnana. Framlög hafa verið aukin til rannsókna og nýsköpunar.

Viðreisn: Menntun er undirstaða efnahagslegrar hagsældar, leiðir til nýsköpunar og stuðlar að almennri velferð í samfélaginu. Framlög til menntunar og rannsókna eru fjárfesting til framtíðar. Viðreisn vill auka samvinnu háskóla, rannsóknarstofnana og atvinnulífs þannig að til verði frjór jarðvegur fyrir nýsköpunarstarf. Í anda þessarar hugmyndafræði viljum við efla samkeppnissjóði hér á landi og stuðla þannig að framsæknum vísindarannsóknum, þróun og sprotastarfsemi.

Vinstrihreyfingin grænt framboð: Öflugir háskólar eru lykilstofnanir í nútímasamfélagi og undirstaða hagsældar og velferðar. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð að fjölga þeim sem lokið hafa framhaldsskóla- og háskólamenntun. Tryggja þarf fjölbreytta menntun þannig að hver og einn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína og skapa sér sín eigin tækifæri. Efla þarf háskólastigið þar sem það hefur í mörg ár verið vanfjármagnað.

 

Vill flokkurinn beita sér fyrir að styrkjakerfi verði komið á í Lánasjóði íslenskra námsmanna?

Björt framtíð: Björt framtíð vill beita sér fyrir því að námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd verði tekið upp.

Framsókn: Framsókn hefur alla tíð staðið vörð um jafnan rétt fólks til menntunar, óháð búsetu og efnahag. LÍN gegnir þar lykilhlutverki. Hækka þarf frítekjumark og endurskoða reglulega raunverulegan framfærslukostnað. Framsókn styður áfram þær hugmyndir um styrkjakerfi sem lagðar voru fram við endurskoðun laga um LÍN á kjörtímabilinu 2013-17.

Miðflokkurinn: Miðflokkurinn ætlar að setja á styrki ásamt námslánum. 

Píratar: Já. Það eru nokkrar aðferðir sem hægt er að beita þar. Ein leið sem við höfum nefnt (ásamt því að lán breytist í styrk) er að greiða út persónuafslátt mánaðarlega. Við stefnum einnig á það að hækka persónuafslátt en núverandi persónuafsláttur jafnast nánast á við full námslán fyrir nemanda sem býr í heimahúsi.

Samfylkingin: Já. Samfylkingin vill fara svipaða leið og í Noregi, þar sem hluti láns fellur niður og breytist í styrk að námi loknu. Samfylkingin hafnar breytingum á LÍN sem draga úr félagslegu jöfnunarhlutverki sjóðsins og eru til þess fallnar að gera vexti lána hærri og greiðslubyrði þyngri.

Sjálfstæðisflokkurinn: Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið frumkvæði að því að tekið verði upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd, 65.000 króna styrk á mánuði og lán ofan á það upp að fullri framfærslu með samtímagreiðslu, sem íslenskum námsmönnum hefur aldrei áður staðið til boða.

Viðreisn: Núverandi námslánakerfi felur í sér stuðning í formi hagstæðra vaxta. Viðreisn telur að stuðningur við námsmenn eigi að vera á formi beinna styrkja. Viðreisn telur enn fremur eðlilegt að námslánakerfið sé árangurshvetjandi og umbuni fyrir góðan námsárangur og hæfilega námshraða.

Vinstrihreyfingin grænt framboð: Já. Vinstrihreyfingin grænt framboð telur löngu tímabært að námslánakerfið verði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að færa það í átt til námsstyrkja. VG mun beita sér fyrir því að þetta verði gert annað hvort með því að hluti framfærslunnar verði í formi styrks, eða að hluti höfuðstóls námslána falli niður ljúki nemendur háskólanámi á tilskildum tíma. Við útfærslu á námsstyrkjakerfi þarf að taka mið af því að hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að veita öllum jafnt aðgengi að menntun.

 

Hver eru önnur sjónarmið flokksins í málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Björt framtíð: Björt framtíð vill að lánveitingar LÍN miði við fulla framfærslu og hvatningu til námsframvindu. Þá teljum við að huga þurfi að félagslegu hlutverki sjóðsins.

Framsókn: Skapa þarf hvata til að laða ungt vel menntað fólk til þess að setjast að á landsbyggðinni, líkt og Norðmenn gera. Framsókn vill að afborganir séu felldar niður af námslánum í fimm ár fyrir þá sem eru búsettir á skilgreindum svæðum á landsbyggðinni. Sama má gera til að bregðast við skorti á fagmenntuðu starfsfólki eins og í leik- og grunnskólum.

Miðflokkurinn: Miðflokkurinn ætlar að setja á styrki ásamt námslánum, sem sagt sama svar og að ofan.  

Píratar: Lán eiga að vera greidd fyrir fram, möguleiki sé að fá þau frá 18 ára aldri og að erlendir ríkisborgarar sem hafa skattfesti á Íslandi geti sótt um lán.

Samfylkingin: Við viljum hækka grunnframfærslu LÍN því hugmyndin um „fátæka námsmanninn” er hvorki sjálfsögð né eðlileg. Þá viljum við hækka frítekjumarkið svo námsmenn geti unnið meira án þess að til skerðinga komi. Að lokum teljum við eðlilegt að lán séu greidd út mánaðarlega.

Sjálfstæðisflokkurinn: Taka skal Lánasjóð íslenskra námsmanna og lánakerfið til endurskoðunar og þá sérstaklega afnám frítekjumarks, endurgreiðslu og styrki. Sjálfstæðisflokkurinn vill því beita sér fyrir breytingum á Lánasjóðnum til að afnema agnúa og tryggja möguleika sem flestra til að fjármagna sitt nám.

Viðreisn: Stefna Viðreisnar byggir á þeirri grunnforsendu að allir eigi jafnan rétt til náms og þar gegnir framfærsla LÍN lykilhlutverki. Námslánakerfið á að stuðla að fjölbreyttri þekkingu, kunnáttu og hæfni í samfélaginu og tryggja að einstaklingar geti fullnýtt hæfileika sína á áhugasviðum sem henta hverjum og einum. Þess vegna leggur flokkurinn áherslu á að afborganir námslána verði áfram tekjutengdar að hluta.

Vinstrihreyfingin grænt framboð: Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur áherslu á að frelsa þurfi námsmenn frá yfirdráttarkerfi LÍN og taka upp samtímagreiðslur. Endurskoða þarf allt fyrirkomulag Lánasjóðs íslenskra námsmanna með jafnrétti til náms að leiðarljósi. Gæta þarf sérstaklega að félagslegu hlutverki LÍN svo fjölskyldufólk, einstæðir foreldrar og efnalítið fólk njóti sömu möguleika til náms og aðrir. Áfram þarf að tryggja að lánin beri lága vexti, og að afborganir séu að hluta tekjutengdar.
 

Hyggst flokkurinn, komist hann í ríkisstjórn, gera ráð fyrir auknum framlögum til íslenskra háskóla í ríkisfjármálaáætlun með það að sjónarmiði að ná meðalframlagi á nemanda á Norðurlöndunum?

Björt framtíð: Reiknilíkanið sem notast er við, við fjármögnun háskólanna er löngu úr sér gengið og þarfnast endurnýjunar svo það standist kröfur nútímans. Háskóli Íslands er fjármagnaður að þriðjungshluta með sértekjum. Það er hærra hlutfall en þekkist meðal háskóla í kringum okkur. Fyrst og fremst þarf að endurnýja reiknilíkanið til að tryggja samkeppnishæfni skólanna. Á meðan það er ekki gert er ekki unnt að segja til um hvert meðalframlagið á að vera.

Framsókn: Framsóknarflokkurinn styður nýja stefnu Vísinda- og tækniráðs og markmið hennar um að framlög til íslenskra háskóla nái fyrst meðaltali OECD 2020 og síðan Norðurlandanna 2024.

Miðflokkurinn: Miðflokkurinn ætlar að beita sér fyrir því. Norðurlönd eru nálægt því að vera einn „menntunarmarkaður“ því er rétt að laga fjárhagslegt stuðningskerfi námsmanna að fyrirkomulaginu á Norðurlöndum.

Píratar: Já. Við gerum ráð fyrir tveimur milljörðum til viðbótar strax á næsta ári. Framhaldið verður svo unnið á vettvangi vísinda- og tækniráðs sem hefur stefnt að því að vinna áætlun til þess að ná því markmiði.

Samfylkingin: Já, við viljum ná meðalframlagi á nemanda á Norðurlöndum og munum strax í okkar fyrstu fjárlögum auka fjárveitingar til íslenskra háskóla.

Sjálfstæðisflokkurinn: Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að auka fjárframlög til íslenskra háskóla, fyrst í stað til að ná meðalframlagi OECD landa. Fjárframlög eru hins vegar ekki óyggjandi mælikvarði á gæði menntunar, þar þarf ekki síður að huga að skólastefnu og aðgengi í háskóla. Önnur Norðurlönd veita þannig talsvert hærri framlög með nemanda en gerist í OECD, en takmarka hins vegar fjölda háskólanema. Hér á landi hefur hins vegar verið fylgt þeirri almennu stefnu að gefa öllum færi á háskólamenntun. Víðtæka umræðu þarf áður en ráðist er í slíkar breytingar.

Viðreisn: Stefna Viðreisnar er að fjármögnun íslenskra háskóla jafnist fyllilega á við það sem best þekkist á Norðurlöndunum. Í því sambandi er mikilvægt að notast sé við sambærilega mælikvarða um framlög til kennslu og rannsókna í heild. Við teljum að fjárframlög til háskólanna og til vísindarannsókna þurfi að hækka umtalsvert á næstu árum og munum beita okkur fyrir því.

Vinstrihreyfingin grænt framboð: Íslenskt menntakerfi er víða undirfjármagnað og framlög á hvern háskólanema á Íslandi eru mun lægri en í öllum nágrannaríkjum okkar. Nýsamþykkt ríkisfjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar gerir ráð fyrir því að festa þessa sveltistefnu í sessi með áframhaldandi aðhaldi og að framlög á hvern nemanda í háskólum hækki með því að fækka nemendum. Vinstrihreyfingin grænt framboð telur mikilvægt að horfið verði af þessari braut. Mikilvægt er að framlög á hvern háskólanema nái sem fyrst meðaltali OECD.
 

Hvaða leiðir viljið þið fara til að ná markmiðum Vísinda- og tækniráðs um fjármögnun háskólanna á næstu árum?

Björt framtíð: Með forgangsröðun í ríkisfjármálum og nýjum tekjustofnum af endurgjaldi fyrir nýtingu náttúruauðlinda.

Framsókn: Eins og áður sagði vill Framsókn setja 20 milljarða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál og bregðast við brýnni þörf um uppbyggingu innviða samfélagsins. Með slíkri innspýtingu yrðu tekin stór skref varðandi fjármögnun háskólastigsins. Samhliða þarf að gera áætlun um hvernig framlög á háskólanema verði sambærileg og meðal nágrannaþjóða okkar.

Miðflokkurinn: Við ætlum að beina fjármagni sérstaklega í iðn- og tækninám. Laga öll skólastig að tæknibreytingum og framtíðarþörfum. 

Píratar: Núverandi stefna vísinda- og tækniráðs gerir ráð fyrir áætlanagerð þar sem fyrri stefna, sem fjallaði um fjárveitingar, var svikin. Við eigum að leggja metnað í menntun vegna þess að þar liggur lykillinn að framtíðinni. Samkomulag um hversu hátt við stefnum verður að vera unnið í víðara samráði þar sem það innifelur í sér hækkanir á launum kennara umfram aðra launahópa í landinu ef það á að ná þeim markmiðum sem talað er um (að ná meðaltali Norðurlanda árið 2025).

Samfylkingin: Samfylkingin leggur mikla áherslu á að auka fjárveitingar til háskólastigsins í samræmi við markmið Vísinda- og tækniráðs. Við ætlum að efla fjármögnun með það að markmiði að hún nái meðaltali OECD árið 2020 og Norðurlanda árið 2025. Við viljum líka endurskoða reiknilíkan háskóla með það fyrir augum að styðja betur við gæði í háskólastarfi.

Sjálfstæðisflokkurinn: Mikilvægt er að auka framlag á hvern háskólanema, en það kann að kalla á frekari umræðu um skólastefnu og aðgengi, líkt og fyrr segir. Einnig þarf að endurskoða reiknilíkan háskólanna þannig að það endurspegli betur raunkostnað og styðji við stefnu stjórnvalda og háskólanna í uppbyggingu og þróun háskólamenntunar til framtíðar.

Viðreisn: Viðreisn leggur áherslu á uppbyggingu nýsköpunar- og þekkingariðnaðar á Íslandi. Háskólar og rannsóknastofnanir leika þar aðalhlutverk. Viðreisn vill auka framlög til háskóla um sjö milljarða króna á komandi kjörtímabili og hefja endurskoðun á reiknilíkani háskólanna til þess að auka gæði og skilvirkni kennslu og rannsókna. Efla þarf samstarf háskóla og vísindastofnana við þekkingarfyrirtækja um rannsóknir og þróun.

Vinstrihreyfingin grænt framboð: Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur skýra sýn um hvernig má styrkja tekjugrunn ríkisins með auknum arði af auðlindum, niðurgreiðslu skulda og stofnframkvæmdum sem fjármagnaðar verða með arðgreiðslum og hliðrun í skattkerfinu sem miðar að því að sækja meira til auðugustu hópanna. Við lítum á fjármögnun háskóla og samkeppnissjóða sem risastórt efnahagsmál fyrir framtíðina til að tryggja öflugar grunnrannsóknir og nýsköpun þannig að íslenskt atvinnulíf og samfélag verði betur í stakk búið til að takast á við tæknibreytingar og aðrar þær áskoranir sem eru handan við hornið.
 

Hyggst flokkurinn skoða aðgangsstýringar í ákveðnar deildir/námsgreinar innan Háskóla Íslands?

Björt framtíð: Nei. Það hefur ekki komið til tals.

Framsókn: Meðan Íslendingar eru enn að ná sama hlutfalli háskólamenntaðra og t.a.m. hinar Norðurlandaþjóðirnar eru aðgangsstýringar ekki á dagskrá. Má vera að það verði á dagskrá þegar fram í sækir en slík stefna yrði aldrei sett nema í víðtæku samráði stjórnvalda, háskóla og atvinnulífs.

Miðflokkurinn: Miðflokkurinn ætlar að beita sér fyrir auknu samstarfi menntastofnana og atvinnulífs og leitast við að mæta betur þörfum atvinnulífsins með fjárfestingu í menntun. Í því felst að möguleikar nemenda á að stunda fjarnám verði auknir til að auka framboð námsgreina og efnis í sem flestum skólum og aukinn stuðningur við fjölskyldur barna sem þurfa að ferðast langar leiðir vegna náms.

Píratar: Píratar munu ekki búa til neinar pólitískar aðgangsstýringar í deildir eða námsgreinar. Sumar deildir eru með inntökupróf á meðan aðrar deildir eru með erfiða áfanga á fyrstu önn. Það er ekkert nema heiðarlegt að láta nemendur vita með einhverjum leiðum hvort þeir séu í stakk búnir til þess að sinna náminu. Því fyrr því betra fyrir alla. Píratar munu ekki koma í veg fyrir að nemendur komist ekki að í nám vegna þess að skólinn er ekki nægilega vel fjármagnaður.

Samfylkingin: Nei, Samfylkingin hafnar aðgangsstýringu og skólagjöldum í opinberum háskólum.

Sjálfstæðisflokkurinn: Það eru aðgangsstýringar nú þegar í ákveðnum deildum og þær kunna að vera nauðsynlegar, bæði með hliðsjón af kostnaði, ávinningi og atvinnuumhverfi. Að óbreyttu er það sjónarmið Sjálfstæðisflokksins að best fari á því að háskólarnir sjálfir stýri því hvort aðgangsstýringar séu teknar upp. Leggja ber áherslu á sjálfstæði háskólanna hvað varðar stjórnun og starfsemi.

Viðreisn: Aðgangsstýring fyrir námsgreinar og háskóladeildir tíðkast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og eðlilegt er að horfa til þess fordæmis. Markmiðið hlýtur ávallt að vera að tryggja gæði náms og þjónustu við námsmenn. Háskólayfirvöld eru best til þess fallin að útfæra slíkar hugmyndir út frá reynslu sinni og með gæði náms og rannsókna að leiðarljósi.

Vinstrihreyfingin grænt framboð: Vinstrihreyfingin grænt framboð telur það vera skyldu samfélagsins að sem flestir njóti háskólamenntunar, enda ávinningur bæði einstaklinga og samfélagsins mikill. Við viljum samfélag þar sem fólk getur sótt sér þá menntun sem því hugnast. Vinstri græn telja eðlilegt að háskólastigið sé fjármagnað af þeim metnaði að ekki þurfi að líta til aðgangsstýringar sem mögulegrar lausnar á fjárhagsvanda þess. Hins vegar geta aðstæður í einstökum greinum kallað á aðgangsstýringu eins og þekkt hefur verið árum saman innan HÍ.