Björt framtíð: „Háskólar verða að njóta meira sjálfstæðis"

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Bjartrar framtíðar um stefnu flokksins er varðar háskólana og málefni stúdenta.

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Háskólanám verður að vera fjölbreytt og gott svo allir geti fundið sér krefjandi nám við hæfi. Fjölbreytt menntun er fjárfesting og undirstaða góðra lífskjara. Háskólar verða að njóta meira sjálfstæðis til þess að aðlagast breyttum tímum og tileinka sér nýsköpun af ýmsu tagi, í kennsluháttum og rannsóknum. Háskólasamfélagið á að vera uppspretta þekkingar og gagnrýnnar hugsunar, sem er nauðsynleg í lýðræðissamfélagi.

Við viljum að fjárveitingar til háskóla endurspegli nemendafjölda og aukið fé sé sett í samkeppnissjóði á sviði rannsókna og tækniþróunar. Æskilegt er að skoða gaumgæfilega hvort sameiningar háskólastofnanna geti verið æskilegar til þess að hver skóli um sig verði öflugri og sjálfstæðari.

Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Við viljum blandað kerfi námsstyrkja og námslána. Ódýr lán ættu að standa öllum til boða og námsstyrkir ættu að nýtast sem hvatning til góðs árangurs og til að jafna félagslega stöðu stúdenta. Við getum ekki stutt breytingar á sjóðnum sem gera efnaminni stúdentum og stúdentum í erfiðri félaglegri stöðu erfiðara fyrir en nú er til að stunda nám. Fyrirliggjandi LÍN frumvarp er því miður því marki brennt.  Það er líka mikilvægt að námsaðstoðarkerfið stuðli ekki að einsleitni í námsvali, þannig að stúdentum sé um of beint í greinar sem teljast til skamms tíma á einhvern hátt arðbærari.

Það er best fyrir þjóðfélagið að fólk geti menntað sig í samræmi við styrkleika sína og áhuga.  Einnig er mikilvægt að námsmenn sem kjósa að afla sér mikillar menntunar í metnaðarfullu doktorsnámi, sem jafnvel kostar mikið fé, geti treyst á stuðning LíN. Það er jafnframt skoðun BF að LÍN verði að tileinka sér eðlilegan sveigjanleika í innheimtu námslána og fara að lögum og viðurkenndum viðskiptaháttum í þeim efnum. LÍN ætti að vera óheimilt að selja út innheimtu námslána til lögfræðistofa, enda er um sérstakar kröfur að ræða sem njóta sérstakrar verndar í lögum.  Löngu tímabært er að verða við áratuga gömlu baráttumáli námsmanna um að námslán verði greidd út mánaðarlega, en ekki eftir að misseri lýkur.

Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

Já. Við höfum talað mjög um það hvernig hægt er að afla meiri tekna, til dæmis af auðlindum þjóðarinnar, og það væri ógnarskynsamlegt að nota slíkt fé til þess að fjárfesta til framtíðar, í menntun og rannsóknum.

Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

Það eru nokkrir málaflokkar sem eru í tíunni að okkar mati.  Háskólarnir eru þar.