8 athyglisverðir hópar á Facebook

Á Facebook eru til hópasíður um allt milli himins og jarðar. Sumar eru einstaklega venjulegar eins og síður fyrir meðlimi nemendafélaga við Háskóla Íslands eða litla vinahópa sem vilja halda sambandi. Inni á milli má hins vegar finna einstaklega áhugaverðar og sniðugar hópasíður sem manni dytti aldrei í hug að væru til. 

Áhugahópur um hafragraut

327 meðlimur

Mörgum kann að finnast morgunmaturinn frekar ómerkilegur hluti af deginum. Hafragrautur er til dæmis einfaldur og hversdagslegur en þykir þó nógu spennandi til að eiga hóp áhugafólks á Facebook. 

Hér deilir fólk nákvæmum uppskriftum að hinum fullkomna graut og ýmsum skemmtilegum hugmyndum að nýjum útfærslum. Eggjahræra, lifrarpylsa, eplamauk, rjómi, skyndikaffi, Nutella og súkkulaðirúsínur er á meðal þess sem áhugafólk um hafragraut mælir með að prófa út á grautinn.

Andvaka

2194 meðlimir

Ef þú átt erfitt með að sofna á kvöldin en hefur engan til þess að spjalla við því vinirnir eru allir sofnaðir gæti þessi hópur verið eitthvað fyrir þig. Hér getur fólk sem er andvaka langt frameftir sótt í félagsskap hvers annars. Sumir vilja spjalla, aðrir segja brandara eða deila skemmtilegu efni til að dreifa huga andvökufólksins.

Sofandi fólk í HÍ

1036 meðlimur

Að taka stutta kríu í skólanum getur verið gott og endurnærandi. Sessunautar skóla-blundara virðast hafa gaman af því að mynda þá en í þessum hópi deilir fólk myndum af sofandi nemendum í HÍ. Á síðunni má finna margar skemmtilegar myndir enda eru svefnstellingarnar oft frumlegar og fagmannlegar, því þetta gengur jú oft út á það að kennarinn taki ekki eftir neinu.

Á síðunni má einnig finna leik sem kallast Svæfingarleikar kennara HÍ en þar fá kennarar stig fyrir að svæfa nemendur. Hermann sem kennir efnagreiningu trónir á toppi stigatöflunnar en Siggi stærðfræðigreiningarkennari fylgir fast á hæla hans. 

Frægir á ferð

1738 meðlimir

Hér er skemmtilegur „spæjarahópur“ fyrir fólk sem hefur áhuga á þekktum einstaklingum og deilir myndum af þeim á förnum vegi. Á síðunni er, sem dæmi, mynd af Björgólfi Guðmundssyni fyrr-verandi bankastjóra að telja peninga bakvið Kaffihús Vesturbæjar og mynd af Rakel Þorbergs-dóttur fréttastjóra RÚV sofandi í sófa í Salalaug. Beggi og Pacas náðust einnig á mynd þegar þeir nældu sér í sex engiferskot á Joe & the Juice í Smáralind. 

Kúrufélaga grúbban

4139 meðlimir

Ef þig langar að kúra með einhverjum geturðu auglýst eftir því á þessari síðu. Einfalt mál. Á síðunni, sem er einungis ætluð fólki eldra en 18 ára, auglýsa meðlimir eftir kúrufélaga með eða án kynlífs. Síðan er mjög virk og greinilegt að marga langar að kúra. Stjórnandi hópsins, Hermann Þór Sæbjörnsson Neffe, hefur staðið fyrir spilakvöldum fyrir meðlimi hópsins sem hafa að hans sögn gengið vel og gefið fólki tækifæri á að kynnast betur áður en það kúrir. 

Áhugafólk um skegg

1102 meðlimir

Hópur fyrir þá sem hafa áhuga á skeggi, hvort sem þeir skarta slíku eða ekki. Meðlimirnir deila ýmsum fróðleik um skegg, myndum af skeggjum sínum eða öðrum sem þykja flott, skiptast á ráðum, spyrja spurninga og svo mætti lengi telja. Á síðunni er mikið af myndum af fallegum skeggjum, sem þykja afar kynþokkafull um þessar mundir, svo hópurinn á ekki síður erindi við kvenfólk en karlmenn. 

Hlutir sem ég þoli ekki!!!

4314 meðlimir

Í þessum hópi getur fólk fengið útrás og deilt með öðrum einhverju sem það þolir ekki. Hver þolir til dæmis að vakna um miðja nótt og sængin snýr á hlið? Eða þegar maður pissar tveimur bunum og allt fer út um allt? Auk þess þolir enginn hart smjör eða að sitja fyrir aftan tveggja metra langan mann í bíó. 

Matargjafir

6368 meðlimir

Einstaklega sniðug síða sem er ætluð öllum sem vilja rétta fram hjálparhönd og gefa mat til þeirra sem eiga ekki mikið og þurfa á hjálp að halda. Það er hollt og gott að gera góðverk og það þarf ekki að vera flókið. Þú gætir eldað örlítið stærri skammt en venjulega og auglýst afganginn á síðunni. Þannig gætir þú jafnvel bjargað degi einhvers sem á um sárt að binda.  

Utangarðsfólk og aðrir rónar

151 meðlimir

Þessi hópur virðist vera ætlaður fólki sem hefur orðið utanveltu í lífinu og er jafnvel heimilislaust og/eða í harðri neyslu. Sumir meðlimir deila hvatningarorðum til þjáningarsystkina sinna en aðrir deila síður uppbyggilegu efni. Það er dálítið erfitt að staðsetja þennan hóp eða slá því á fast hvort um eiginlegt tengslanet eða stuðningshóp útigangsfólks sé að ræða, en athyglisverður er hann engu að síður.