Létt spjall um kosningar

Nú er tími stúdentaráðskosninganna, eins og glöggir hafa eflaust tekið eftir. Mikilvægt er að nýta kosningarétt sinn í hvert sinn sem kosningar eru og eru kosningar til stúdentaráðs Háskóla Íslands alveg jafn mikilvægar fyrir okkur námsmennina eins og hinar stóru, til alþingis eða í borgarstjórn, eru fyrir þjóðina. Yngri bróðir minn sem er einnig minn persónulegi bílstjóri, furðaði sig á því um daginn þegar hann skutlaði mér í Kjallarann í fimmtudagsbjórdrykkjuna að háskólasvæðið væri bara alveg eins og lítið samfélag. Sem er alveg hárrétt, háskólinn er samfélag og við viljum öll að samfélagið okkar virki sem best fyrir okkur sem heild.
 
Kosningar geta þó verið mörgum mönnum fremur torveldin og skrítin. Því þrátt fyrir að það séu bara tvær fylkingar í framboði þá getur það verið erfitt, fyrir einhvern sem er nýbúi í samfélagi háskólamanna, að sjá hvaða starf stúdentaráð vinnur fyrir samfélagið og auk þess hvað þessar tvær fylkingar ganga raunverulega út á. Fylkingarnar tvær eru Vaka, sem er jafnframt rótgrónasta fylkingin, og svo Röskva sem hefur verið í mótframboði lengi vel. Margir hafa viljað staðsetja þessar tvær fylkingar í samhengi við landsstjórnmálin og hefur þótt vinsælt að greina þær niður í  hægri og vinstri. Er þá Vaka iðulega kennd við hægri vænginn á meðan Röskva er talin vera á þeim vinstri. Líklegast er það tengt við uppruna fylkinganna tveggja.  Munurinn á milli stefnumála beggja fylkinga er þó mjög lítill, að minnsta kosti virðast meginatriðin vera þau sömu. Bæði vilja Vaka og Röskva að grunnframfærsla LÍN hækki ásamt frítekjumarkinu og að stúdentaíbúðum fjölgi. Auk þess vilja báðar fylkingar bæta aðgengi og umhverfi skólans til að mæta kröfum nemenda, eða með öðrum orðum reyna að fá meira fyrir nemendur. Þó þau hafi mismunandi áherslupunkta í þeim efnum.
 
Margir tala um kosningarnar til stúdentaráðs sem vinsældakosningar. Núna vikuna fyrir kosningar hafa verið hin ýmsu kynningapartý hjá báðum fylkingum. Kjósandi sem vill taka meðvitaða ákvörðun og kynna sér bæði framboð ákveður kannski að fara í partý hjá Vöku og Röskvu til skiptis. Hætta er samt á því að maður fari oftar á þann staðinn þar sem maður þekkir fleira fólk. Í tæknivæddu samfélaginu hefur áróðurinn einnig borist á samfélagsmiðla og gæti kjósandi því smitast meira af þeim boðskap sem að þar er kynntur af vinum og kunningjum. Þannig getur vinafjöldi fylkinga haft veruleg áhrif á kosningarnar. Því er ekki vitlaust af frambjóðendum að vera nógu félagslyndir og opnir til viðræðna.

Ég persónulega fékk nokkur skilaboð á Facebook frá aðilum sem ég hef ekki talað við eða heyrt í lengi, og ég veit  um fleiri sem geta sagt sömu sögu. Alltaf gaman að heyra í gömlum vinum en samt eitthvað svo súrt þegar það er bara til að fá atkvæði frá manni. Frambjóðendur taka jafnvel upp á því að hringja í fólk, sem getur verið gott til að kynna almennilega stefnumál sín, en einnig getur það verið almennt bögg fyrir kjósendur, þá sérstaklega ef þeir hafa engann áhuga á kosningunum eða eru búnir að ákveða að kjósa þá fylkingu sem þau þekkja mest til. Ég fór reyndar í bæði Vöku - og Röskvupartý á föstudaginn var, en það var lítið um málefnalegar umræður í þeim boðunum. Að minnsta kosti engar sem ég man eftir.

Báðar fylkingar gáfu síðan út vegleg tölublöð þar sem málefnaskrá þeirra var kynnt, en þau þarf að lesa vel því það er auðvelt að týnast í þeim fjölda stefnumála sem þar koma fram. Enda margt sem þarf að bæta í okkar ágæta háskólasamfélagi. Ég persónulega sá bara aragrúann af góðum og gildum málefnum í báðum tölublöðunum og vildi ég helst að öll málefnin væru tekin inn á borðið á næstunni.

Ætli aðalmálið sé því ekki að fá gott og kraftmikið fólk inn í stúdentaráð sem reynir að gera sem mest af öllum þessum góðu hugmyndum sem hafa komið upp hjá báðum fylkingum. Kannski er þetta því meira spurning um hvaða fólk maður er að kjósa inn heldur en hugmyndirnar sem hafa skapast um fylkingarnar tvær. Það er fremur áberandi hjá þeim sem kjósa að vera fastir eilíft í því sama. Ef skoðað væri fylgi á milli deildanna gæti maður líklegast séð eitthvert mynstur. Ætli þar komi ekki inn í að hver kjósandi smitast af umhverfi sínu og kýs á endanum þá fylkingu sem hann þekkir mest til, þ.e.a.s út frá vinasamböndum sínum.

Ég hvet samt alla nemendur Háskóla Íslands að reyna að kynna sér stefnumál beggja fylkinga áður en kosið er og skoða einnig þessi litlu stefnumál sem eru oft virkilega sniðug og skemmtileg. Til dæmis í verslunarmálum stúdentagarða og hugmyndir um bætta aðstöðu í líkamsræktarstöð háskólasamfélagsins. Ég er enn að gera upp hug minn, hef til dæmis persónulega mikinn áhuga á því að bæta aðgengi Árnagarðs, þar sem það er jú bygging deildarinnar sem ég tilheyri, en á hinn bóginn vil ég líka gjarnan fá Hámu í Þjóðarbókhlöðuna og enda eilífar þrætur mína um vont kaffi.