Bóksali með dömubindi veitir sáluhjálp á milli þess sem hann klárar internetið

Sólríkan eftirmiðdag í október gerði ég mér ferð í Stakkahlíð. Þar hafði ég mælt mér mót við Sturlu Halldórsson sem rekur Bóksölu kennaranema. Tilgangur heimsóknar minnar var að forvitnast um þessa litlu verslun sem ég hafði oft heyrt sögur af í gegnum tíðina.

„Á ég ekki bara að kaupa blýant?“

Það fyrsta sem ég tek eftir er hversu heimilisleg verslunin er. Andrúmsloftið er afslappað og það minnir mig á stemninguna í litlum verslunum úti á landi. Innan um stafla af bókum og blýöntum má sjá dömubindi sem eru seld í stykkjatali. „Nauðsynjavara sem sjálfsagt er að bjóða upp á,“ eins og Sturla orðar það. Aðspurður sagði Sturla að einnig væri hægt að fá höfuðverkjatöflur hjá honum en að hann kynni nú ekki við að rukka fyrir þær. Ég er ekki frá því að nærvera Sturlu hafi eitthvað með þetta andrúmsloft að gera. Það er augljóst að þessi sálfræðimenntaði maður hefur gaman af mannlegum samskiptum og hann gefur af sér. Það kom glöggt í ljós að fleiri en ég finna þetta, þar sem fyrsti kúnni á meðan heimsókn minni stóð spyr Sturlu: „Á ég ekki bara að kaupa blýant?“ engu líkara en að hann liggi í sófanum hjá honum í sálfræðitíma. Hann viðurkennir að starfið getur komið inn á menntun sína. „Jaaaá,“ svarar Sturla með bros á vör. „Það kemur fyrir að maður veiti sálfræðiþjónustu svona þegar stressið í nemendum er hvað mest.“

Tilvalið að gera upp mótorhjól.

Stúdentablaðið/Unnur Ósk Kristinsdóttir

Stúdentablaðið/Unnur Ósk Kristinsdóttir

Sturla segir samstarfið við kennara og fólkið í húsinu mjög gott. Sumir sem kenna þarna í dag er fólk sem kom að stofnun bóksölunnar, þá sem nemendur. Honum líkar vel að vinna þarna. „Hér eru góðir nemendur, það er gott fólk sem vinnur við að vera kennarar og gott fólk sem ætlar sér að verða kennarar, leikskólakennarar, uppeldis- og menntunarfræðingar, þroskaþjálfar og þar frameftir. Fólk er þægilegt í umgengni og allt bara ánægjulegt.“ En hvernig stytta menn sér stundir þegar lítið er að gera? „Það eru ýmsir hlutir eins og innpantanir og þannig lagað varðandi reksturinn en svo fer ég oft bara hamförum á netinu, held hreinlega stundum að ég hafi bara klárað það! Svo er það líka spjall við starfsfólk og nemendur sem stytta manni stundir. Hér eru margir fastakúnnar.“

Stúdentablaðið/Unnur Ósk Kristinsdóttir

Stúdentablaðið/Unnur Ósk Kristinsdóttir

Sturla gefur dæmisögu um þau góðu tengsl sem eru við starfsfólk hússins. „Það var hérna einn kennari sem var alltaf að reyna að sannfæra mig um að ég ætti að kaupa ónýtt mótorhjól og og gera það upp í vinnuherberginu hérna. Eins og þeir sem hingað hafa komið vita þá er plássið heldur af skornum skammti en það virtist ekki skipta neinu máli. Ekki heldur sú staðreynd að ég veit nákvæmlega ekkert um mótorhjól og kann ekki einu sinni að keyra þau. Þetta myndi gera svo mikið fyrir móralinn í húsinu sagði hann, allir yrðu alltaf að spá í hvernig gengi með mótorhjólið og þetta yrði aðal málið. Svo harður var hann á þessu að ég mátti ekki hitta manninn á göngunum án þess að hann spyrði „hvernig gengur með mótorhjólið?“ Tek það fram að það er aldrei neitt andskotans mótorhjól að fara að koma hingað inn af augljósum ástæðum!“

Vettlingar frá fastakúnna.

Eftir að hafa starfað þarna í 9 ár í desember næstkomandi og séð margt spyr ég Sturlu hvort hann lumi ekki á sögum af eftirminnilegum kúnnum. Sagan sýnir vel hversu góða þjónustulund Sturla og vinnufélagar hafa yfir að búa. „Ég má til með að segja frá fullorðinni konu sem vandi komur sínar hingað á tímabili. Hún stóð þá við tölvuna, sem venjulega er hugsuð fyrir fólk til að prenta úr eða sækja sér einhverjar upplýsingar, klukkustundum saman og pikkaði upp löng lögfræðileg bréf þar sem hún virtist standa í einhverjum málaferlum. Hún pikkaði þessi bréf upp af útkrotuðum notuðum umslögum sem hún var greinilega að endurnýta. Þetta gat verið svona daglega á tímabili. Hún kunni samt lítið sem ekkert á tölvur og þurfti aðstoð við flest. Við höfðum það þó aldrei í okkur að biðja hana ekki um að einoka tölvuna og aðstoðuðum hana eftir fremsta megni. Enda vildi hún að lokum endilega þakka fyrir sig með því að prjóna vettlinga á okkur og börnin mín.“

Aðspurður um framtíðaráform og hvort hann sjái fyrir sér að vera þarna í 9 ár í viðbót er lítið um svör. „Jaaaa, ég veit ekki. Það gæti svo sem vel verið að maður hugsi sér til hreyfings, lítið ákveðið svo sem varðandi það, ég hef það líka bara alltof gott hérna!“

Stúdentablaðið/Unnur Ósk Kristinsdóttir

Stúdentablaðið/Unnur Ósk Kristinsdóttir

Ég þakka Sturlu fyrir gott spjall og geng útí haustsólina með bros á vör. Það er gott að vita af stað þar sem hægt er að kaupa blýanta, láta prenta verkefni og fá smá sáluhjálp í kaupbæti.

Bóksala kennaranema var stofnuð sama ár og Sturla fæddist, eða árið 1978. Sturla rekur verslunina en hún er á vegum Kennó, nemendafélags kennaranema. Hann hefur starfað þar í hartnær 9 ár. Fyrst sem afgreiðslumaður en tók svo við rekstrinum. Auk þess að selja ritföng, bækur og leshefti þá er einnig prentþjónusta á staðnum. Hægt er að láta prenta út efni, skanna inn efni, leita í greinarsöfnum og einnig tekur starfsfólk bóksölunnar að sér innbindingu. TIl að mynda er hægt að leita til þeirra varðandi frágang á lokaverkefnum og er slík vinna afgreidd samdægurs. Verslunin er opin frá 8:30 til 16:00 alla virka daga.