Styrkja stöðu menningargreina

Menningarfélag HÍ er félag framhaldsnema í menningargreinum við Íslensku- og menningardeild. Félagið stendur fyrir ýmiss konar viðburðum en þar má nefna kvikmyndasýningar, umræðufundi, leshringi og málþing. Tilgangur félagsins er að styrkja stöðu menningagreina innan Háskóla Íslands og efla fræðilega umræðu. Menningarfélagið var þó upphaflega stofnað vegna þess að upp hafði sprottið þörf fyrir samtal á milli nemenda í þessum greinum.

„Þetta er góður vettvangur til að tala um námið. Þegar komið er út í þessi fræði getur maður ekki endalaust talað við fjölskyldu og vini um það sem maður er að læra og þá er fínt að hitta aðra sem eru á svipuðum stað,“  segir Þórdís Rósmundsdóttir stjórnarmeðlimur.

Spennandi verkefni framundan 

Verkefni síðustu ára hafa verið vel sótt og er markmið félagsins að halda áfram að skipuleggja spennandi viðburði. Næsti viðburður er málþing um myndasögur 7. nóvember með skemmtilegri og fræðandi dagskrá.

„Við hvetjum alla til að kíkja á málþingið okkar. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis en hægt er að fá nánari upplýsingar á fésbókarsíðu félagsins, Menningarfélagið. Einstaklingar á meistara- og doktorsstigi og einn úr listahákólanum fjalla um myndasögur og rannsóknir sínar. Við stefnum að því að vera með málþing á næsta ári líka,“ segir Sólveig Ásta Sigurðardóttir, formaður félagsins.

Nemendur þurfa ekki að skrá sig í félagið né borga félagsgjöld svo að allir menningarþyrstir háskólanemar geta notið viðburða félagsins með bros á vör.

Sirkústjaldið

Sirkústjaldið er vefrit tveggja nemendafélaga við Háskóla Íslands, Artímu (félag listfræðinema) og Menningarfélagsins. Á vefritinu eru birtar greinar, viðtöl og pistlar sem tengjast listum og menningu. Sirkústjaldið er vettvangur fyrir fólk til þess að koma hugðarefnum sínum sem tengjast menningu og listum á framfæri. Öllum er velkomið að senda ritstjórn vefsins greinar og annað efni sem tengist listum og menningu.