Lífsins sársaukafulla leið - Konan við 1000°

Hún liggur í hrúgaldi af ferðatöskum og étur súrar gúrkur úr krukku. Konan, Herbjörg María Björnsson, kemur áhorfandanum fyrir sjónir sem trunta og sorakjaftur, einsamalt kerlingarhró sem býr í bílskúr.

En Herbjörg Björnsson, Herra Björnsson, saup marga fjöruna á lífsleiðinni. Barnsskónum sleit hún í Kaupmannahöfn og Berlín á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Hans faðir hennar var sonur Sveins Björnssonar, fyrsta forseta íslenska lýðveldisins. Hann var nasisti. Herra var hins vegar enginn nasisti og tólf ára gömul var hún úthrópuð sem föðurlandssvikari af þýskum hermanni. 

Herra sagðist sjálf hafa verið á skjön við þær aðstæður sem lífið skapaði henni hverju sinni. Hún var ýmist af röngu þjóðerni, röngu kyni eða með rangar skoðanir. Stríðið lék hana grátt og henni var nauðgað, hún svívirt og yfirgefin barnung af móður sinni. Haldreipi Herru í lífinu var handsprengja sem faðir hennar gaf henni. Sprengjuna mátti hún aðeins nota ef lífið lægi við en Herra gekk með hana í veskinu alla sína ævi. „Gæslumann eldsins,“ kallaði hún sig og hélt lífi í eldinum með því að hlífa sprengjunni en bregða fyrir sér kjaftinum.

Í upphafi sýningarinnar pantar Herra sér tíma í líkbrennslu. Hún treystir sonum sínum ekki til þess að sjá um það en reynslan hefur kennt henni að treysta ekki neinum. Sérstaklega ekki karlmönnum. Það er augljóst að Herra er deyjandi manneskja; hún hóstar og er svo máttvana að leiðina á klósettið kallar hún „via dolorosa.“

Konan við 1000° er byggð á samnefndri bók Hallgríms Helgasonar en hann annast leikgerðina sjálfur. Sýningin er sýnd á litlu sviði, nánar tiltekið í Kassanum, sem rúmar aðeins hundrað og fjörutíu áhorfendur í sæti. Eflaust hefur það komið mörgum á óvart að leikrit sem byggt er á því stórvirki sem bókin vissulega er skuli vera sett upp á svo litlu sviði. Hallgrímur veit þó hvað hann syngur og þessi útfærsla er vel heppnuð. Persóna Herbjargar er svo umfangsmikil að lítið svið hentar vel, áhorfandinn kemst nær henni og skynjar hana í öllu sínu veldi. Hin annálaða textasnilli Hallgríms nýtur sín jafnframt vel í sýningunni og þótt munnsöfnuður Herru sé hranalegur þá er hann líka stórkostlega húmorískur.

Leikarar sýningarinar stóðu sig með prýði. Karakter Herru, svo hrár og gróteskur en á sama tíma svo viðkvæmur og brotinn var stórkostlegur í meðförum Guðrúnar Gísladóttur. Elma Stefanía Ágústsdóttir gerði Herru ungri góð skil og leikur hennar var þroskaður þrátt fyrir ungan aldur. Samspil leikmyndar, búninga, lýsingar og tónlistar mynduðu jafnframt sannfærandi umgjörð utan um aðalpersónuna.

Þrátt fyrir að leikritið hafi gengið prýðilega upp á litlu sviði finnst mér leikaraleysi vera umkvörtunarefni. Aukahlutverkin voru mörg en leikarar sýningarinnar aðeins sjö talsins. Þannig misstu sumar senur trúverðugleika sinn, til dæmis þegar Edda Björg Eyjólfsdóttir lék jafnöldru hinar ungu Herru eftir að hafa nokkrum andartökum fyrr verið í hlutverki móður hennar. Edda og aðrir leikarar leystu þetta þó ágætlega af hendi en ef ekki hefði verið fyrir fagmennsku leikaranna hefði þetta getað haft talsverð áhrif á gæði sýningarinnar.

Niðurstaða: Konan við 1000°er hrífandi og áhrifamikil sýning. Leikarar í burðarhlutverkum fara á kostum og umgjörðin sannfærandi. Umfram allt er það þó konan sjálf, Herra, og allar hennar þúsund gráður sem skilja mest eftir sig.

Einkunn: ****

Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir

Leikarar: Guðrún Gísladóttir, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Snorri Engilbertsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson og Pálmi Gestsson.

Konan við 1000° var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu 26. september síðastliðinn. Sýningin byggir á samnefndri bók Hallgríms Helgasonar. Miða á sýninguna má nálgast hér