Minning um Ingjald Hannibalsson

Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, varð bráðkvaddur á heimili sínu laugardaginn 25. október síðastliðinn. Hann fæddist í Reykjavík árið 1951 og var því 62 ára að aldri. Ingjaldur vann mikilvægt og óeigingjarnt starf við Háskóla Íslands og naut mikillar virðingar hjá samstarfsfólki og nemendum. Viljum við hjá Stúdentablaðinu gjarnan minnast hans.

Ingjaldur hóf stundakennslu við Háskóla Íslands árið 1978 og varð fastráðinn sem dósent árið 1982 í hlutastarfi. Á níunda áratugnum var hann forstjóri Iðntæknistofnunar, forstjóri Álafoss og framkvæmdastjóri Útflutningsráðs Íslands. Árið 1993 tók hann við stöðu dósents við Háskóla Íslands og varð prófessor við skólann í Viðskipta- og hagfræðideild árið 1997. Eftir Ingjald liggja fjölmargar greinar og erindi á fræðisviði hans, svo og um fjármál, skipulag og rekstur háskóla.

Ingjaldur sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum innan Háskóla Íslands og var m.a. formaður viðskiptaskorar 1994-1996 og 2006-2007, deildarforseti Viðskipta- og hagfræðideildar 2007-2008 og deildarforseti Viðskiptafræðideildar 2008-2014. Hann var formaður stjórnar Reykjavíkurapóteks 1996-1999 og fulltrúi í fjármálanefnd háskólaráðs Háskóla Íslands frá 1996 og varð formaður nefndarinnar 1997. Þá sat hann í stjórn Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands frá 1996 og var formaður hennar 1996-1999, í stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands 1997-2001 og formaður stjórnar Tækniþróunar hf. Frá árinu 1998 sat hann í stjórn Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og frá 1999 í stjórn Reiknistofnunar Háskólans. Hann var framkvæmdastjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs Háskóla Íslands 2001-2003. Hann var mjög virkur í húsnæðismálum Háskólans og sat í skipulags- og húsnæðisnefnd 2001-2003, var m.a. í byggingarnefndum um Öskju og Háskólatorg þar sem hann var formaður. Þá var hann í nefnd um byggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og sat í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. frá árinu 2005. Hann var formaður skipulagsnefndar háskólaráðs frá 2007.

Virkilega góður kennari

Ég mælti mér mót við fyrrum nemanda Ingjalds, Valgerði Önnu Einarsdóttir, en hún sat tíma hjá honum á núverandi misseri. Það var vel við hæfi að við skyldum hittast á Háskólatorgi, byggingu sem var Ingjaldi ansi hugleikin. Valgerður hafði margt gott að segja um Ingjald.

„Ingjaldur var mjög kröfuharður á nemendur sína og hafði gífurlegan áhuga á efninu. Það má segja að hann hafi hent okkur út í djúpu laugina strax. Í fyrsta tíma mætti hann með mikrófón og lét hann ganga út í sal í 300 manna tíma. Fólk er oft feimið og finnst erfitt að taka frumkvæði, sérstaklega fyrir framan svona marga. Og allir hugsuðu að best væri að horfa ekki í augun á honum, því þá myndi hann ekki spyrja þá. Fyrst bað hann um sjálfboðaliða en valdi svo nemendur af handahófi til að tjá sig um námsefnið. Hann hélt áfram að gera þetta í næstu tímum og þetta hvatti mann til að mæta ekki óundirbúinn í tíma, sem er auðvitað mjög mikilvægt. Það er nefnilega oft þannig hér í háskólanum að fólk mætir óundirbúið í tíma, þar sem það er ekki skyldumæting og fólk hugsar kannski bara að það ætli að lesa efnið seinna.“

Valgerður sagði að það hefði verið greinilegt að Ingjaldur vildi að nemendum gengi vel. Þrátt fyrir stutt kynni þá skildi hann mikið eftir sig og ótímabært fráfall hans er áfall fyrir nemendur að hennar sögn. „Það var greinilegt að hann vildi svo mikið kenna fólki námsefnið. Það voru umræðutímar hjá honum og maður fékk ekki fulla mætingu ef maður tók ekki þátt í þeim. Maður þurfti að gera meira en að mæta bara og sitja út tímann án þess að taka þátt. Og svo voru skyndipróf sem enginn vissi af fyrirfram! En það var mjög gaman og þetta kveikti áhuga á efninu. Hann dró nemendur útúr þægindahringnum sem var mjög gott. Hann var virkilega góður kennari. Og með sniðugar hugmyndir. Gott dæmi um það var að hann vildi að það væri að minnsta kosti einn skiptinemi í öllum hópunum, þegar um hópavinnu var að ræða. Sem var mjög sniðugt, meðal annars til að skiptinemar myndu kynnast heimafólkinu og einnig til að fá þeirra hlið á málunum í umræðuna. Svo voru litlir hlutir sem gerðu hann að þessum manni, eins og hárið sem stóð allt upp í loft og hvernig hann lagfærði gleraugun á nefinu,“ segir Valgerður með fjarlægt bros á vörum.

Háskólinn hans annað heimili

Það er fallegt og hjartnæmt að lesa minningargreinar um Ingjald. Samstarfsfólk, nemendur, vinir og vandamenn eru sammála, Ingjaldur var vænn maður, hjartahlýr og hjálpsamur með eindæmum. Og virkilega góður kennari. Þetta sá ég greinilega er ég gluggaði í minningargreinar og einnig heyrði ég sömu hlutina í spjalli við samstarfsfólk hans. Ingjaldur var kröfuharður og ætlaðist til þess að nemendur ynnu fyrir einkunnum og leggðu sitt af mörkum í umræðuna. Hann var skipulagður, sanngjarn og jákvæður. Brosið var aldrei langt undan enda lærði hann mikilvægi þess á ferðalögum sínum en hann var mikill ferðalangur. Segja má að Háskólinn hafi verið hans annað heimili. Og hann setti sannarlega svip sinn á staðinn og mótaði það starf sem þar hefur farið fram. Hann bar hag Háskólans sem einnar heildar fyrir brjósti og hafði gríðarlegan metnað fyrir því sem hann tók sér fyrir hendur og ekki síst fyrir Háskólanum. Líkt og Páll Skúlason, fyrrum rektor Háskóla Íslands, komst svo vel að orði í minningargrein í Morgunblaðinu: „Hann var hógvær en með heilbrigðan metnað til að láta gott af sér leiða í lífinu.“

Ingjaldur var ósérhlífinn og öðrum til fyrirmyndar. Ávallt var hann tilbúinn að aðstoða, hvort sem það voru nemendur eða samstarfsfólk. Hann var svo sannarlega til staðar fyrir þá sem á þurftu að halda. Samstarfsfólk hans nefna heilindi hans í öllum samskiptum sem einn af hans stærstu kostum. Hversu vel var hægt að treysta á hann, ef hann sagði eitthvað þá stóð það og klikkaði ekki. Þá var hann mjög sanngjarn. Ekki var til hroki í honum eða eitthvað falskt. Einnig var hann góður stjórnandi, þægilegur í umgengni og lagði mikið upp úr góðum anda og léttleika enda með góða kímnigáfu og ekki síst fyrir sjálfum sér. Ingjaldur var mikil félagsvera og hafði ákaflega gaman af að vera í kringum fólk og að rökræða við nemendur og samstarfsfólk. Hann hafði gaman af því að etja saman fólki í þessum rökræðum. Þetta fannst honum upplagt að gera til að skerpa á mikilvægri umræðu. Oftar en ekki urðu til fjörugar umræður í kringum hann, til dæmis á göngum Háskólans þar sem hann gaf sér tíma fyrir alla þá er vildu.

Heimsótti öll lönd Sameinuðu þjóðanna

Ingjaldur var mikill heimshornaflakkari og sennilega víðförlasti maður Íslandssögunnar. Hann hafði nýlokið því markmiði sínu að heimsækja öll 193 þátttökulönd Sameinuðu þjóðanna, verkefni sem tók hann 49 ár en síðustu 63 löndin heimsótti hann á síðustu tíu árum. Síðustu sex löndin sem hann átti eftir að heimsækja heimsótti hann á sex vikna ferðalagi síðastliðið sumar. Magnað afrek hjá mögnuðum einstaklingi.

Það er ljóst að stórt skarð er hoggið í starfsmannahóp Háskóla Íslands. Og skrýtið verður að sjá ekki Ingjald ganga rösklega um ganga skólans á leið í næsta verkefni með hárið upp í loftið. Hans verður sárt saknað. Besta leiðin til að minnast hans er sennilega að brosa til hvors annars, sýna þá manngæsku sem við höfum yfir að búa því samkvæmt Ingjaldi þá hafa öll hans ferðalög kennt honum eitt, að fólk sé almennt gott.